knits.by.linda
Tinnupeysa no. 2
Í febrúar síðastliðnum (2023) fékk ég tölvupóst frá vinkonu minni hjá Tinnu ehf. þar sem hún sagði mér frá nýju garni sem þær væru að taka inn og spurði hvort ég hefði áhuga á samstarfi og þá að prófa nýja garnið og skrifa uppskrift fyrir það. Ég hélt það nú, lagðist í hugmyndavinnu og prufur og hér er Tinnupeysa no. 2, sem er afraksturinn af þeirri vinnu. Peysan er prjónuð ofan frá og niður, í hring með laskaútaukningum og fínlegu gatamynstri á berustykki, bol og ermum. Hin fullkomna peysa utan yfir skyrtur eða kjóla. Klauf sitt hvoru megin á bol við stroff. Ég mæli með að lesa yfir uppskriftina í heild áður en þú byrjar.
Stærðir: XS (S) M (L) XL (2XL) 3XL
Garn: Peysan er prjónuð úr tveimur þráðum saman, annars vegar Organic Trio frá Hjertegarn (50 g = 230 m) og hins vegar Sandnes Alpakka følgetråd (50 g = 400 m).
Garnmagn: 200 (250) 300 (300) 300 (350) 350 g af Organic Trio og 100 (150) 150 (150) 150 (200) 200 g af Alpakka følgetråd.
Prjónar: Hringprjónar og sokkaprjónar nr 4,5.
Prjónfesta: 21/10 slétt prjón á prjóna nr 4,5 með báðum þráðum saman. Athugið að mynsturprjón skekkir prjónfestu aðeins, prjónfestan með mynsturprjóni er 20/10 og yfirvídd er reiknuð út miðað við það.
Yfirvídd: ca. 96 (102) 108 (114) 120 (126) 132 cm.
Athugið að ég á þessa uppskrift líka í stærð 4XL, með yfirvídd ca. 138 cm hefur ekki verið prufuprjónuð en allar tölur, teikningar og upplýsingar varðandi þá stærð eru yfirfarnar í bak og fyrir og eiga að vera að öllu leyti réttar. Ef þú hefur áhuga á að prjóna þá stærð, endilega sendu mér línu á info.knitsbylinda@gmail.com.
Allar uppskriftir eru sendar rafrænt (PDF) á uppgefið netfang þegar greiðsla hefur verið framkvæmd. Hægt er að hlaða skjalinu niður 3 sinnum áður en hlekkurinn verður óvirkur. Ég mæli með að vista uppskriftina á góðum stað.