knits.by.linda
Nóvember ungbarnasett
Við hjónin eigum von á okkar fyrsta barnabarni í nóvember ´24. Fljótlega eftir að eldri dóttir okkar sagði okkur gleðifréttirnar fór ég að spá í hvernig heimferðarsett hana myndi langa í fyrir barnið. Við vorum sammála um að það væri gaman að hafa það með köðlum því öll börnin mín þrjú fóru heim í sama settinu sem tengdamóðir mín prjónaði og það var einmitt með köðlum. Nóvember settið er hér komið, innblásið af 30 ára gömlu setti með nútímalegum blæ, afar krúttlegt með sætum köðlum og gatamynstri.
Peysan er prjónuð ofan frá og niður, fram og til baka með laskaútaukningu og fallegu mynstri á berustykki og bol að framan. Peysan er hneppt á hlið og tölu- og hnappagatalistar eru prjónaðir samhliða. Ermar og bakstykki eru prjónuð slétt.
Smekkbuxurnar eru einfaldar en afar krúttlegar. Prjónaðar ofan frá og niður, fyrst fram og til baka en síðan er tengt í hring.
Húfan er lítil og sæt fyrir þessi allra minnstu, með sama mynstri og á peysunni. Prjónuð ofan frá og niður. Saumuð saman að ofan.
Stærðir: 0 – 3 mán (3 – 6 mán) 6 – 9 mán (9 – 12 mán).
Garn: Knitting for Olive merino (50 g = 250 m).
Garnmagn: 150 (150) 200 (250) g í allt settið.
Prjónar: 3 mm hringprjónar og sokkaprjónar.
Prjónfesta: 28/10 slétt prjón á 3 mm prjóna.
Allar uppskriftir eru sendar rafrænt (PDF) á uppgefið netfang þegar greiðsla hefur verið framkvæmd. Hægt er að hlaða skjalinu niður 3 sinnum áður en hlekkurinn verður óvirkur. Ég mæli með að vista uppskriftina á góðum stað.