knits.by.linda
Gullbrá ungbarnateppi
Amma mín heitin var mikil hannyrðakona og eitt af því sem hún prjónaði voru dúkar. Ég man eftir því að hafa strokið fingrunum eftir fínlegum mynstrunum á þeim og minnist einnig sérstaklega vel þegar hún var að stífa þá með stífelsi og pinna niður á stórt froðuplast. Einhverra hluta vegna fór ég að hugsa um þá síðastliðið vor, hversu mikið verk hver og einn hefur verið, listaverk jafnvel, prjónaðir á mjög fína prjóna og margir hverjir býsna stórir. Út frá þessum hugsunum spratt hugmyndin að Gullbrá ungbarnateppinu og mynstrið í því minnir á þessa gömlu dúka. Teppið er mjúkt og hlýtt, ferkantað og því hægt að brjóta það saman eins og umslag og þannig fullkomið til að vefja utan um litla kroppa. Það er prjónað í hring með fallegu mynstri. Perluprjónskantur umhverfis setur svo punktinn yfir i-ið. Í uppskriftinni eru tvær útgáfur, sú fínlega og sú grófari. Ég mæli með að lesa uppskriftina yfir áður en þið byrjið.
Fínlega útgáfan:
Stærð: Ein stærð ca. 85 x 85 cm.
Garn: Haya frá Holst (50 g =185 m). Það fæst hjá Garn í gangi á Akureyri.
Garnmagn: 250 g.
Prjónar: sokkaprjónar og hringprjónar nr. 4.
Prjónfesta: 24/10 slétt prjón á prjóna nr. 4 en athugið að endurtekið mynsturprjón getur skekkt prjónfestuna aðeins.
Grófari útgáfan:
Stærð: Ein stærð ca. 95 x 95 cm.
Garn: Merino 120 frá LANG. (50 g = 120 m). Það fæst hjá Garn í gangi á Akureyri.
Garnmagn: 450 g.
Prjónar: sokkaprjónar og hringprjónar nr. 4,5.
Prjónfesta: 21/10 slétt prjón á prjóna nr. 4,5 en athugið að endurtekið mynsturprjón getur skekkt prjónfestuna aðeins.
Allar uppskriftir eru sendar rafrænt (PDF) á uppgefið netfang þegar greiðsla hefur verið framkvæmd. Hægt er að hlaða skjalinu niður 3 sinnum áður en hlekkurinn verður óvirkur. Ég mæli með að vista uppskriftina á góðum stað.